Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Sagan endalausa...

Maístjarnan mín er ennþá mjög þreytt sem er ekkert nýtt, það er byrjað að trappa hana niður af sterunum, hún er útþanin af bjúg, á erfitt með gang, getur ekki staðið upp ein, þungur andardráttur, endalaust svöng og líður ekkert svakalega vel andlega.  Við vöknum saman á hverri nóttu (vaktaskipti í fríinu hjá foreldrunum) og þá þarf hún að borða og oftast er kveikt á teiknimyndum því hún hefur ekki verið tilbúin að fara sofa aftur og það gengur kanski í tvo tíma.  Foreldrarnir eru alveg farnir að þrá smá svefn en þetta er vonandi "bara" tímabil sem gengur yfir.

Ég heyrði hana fyrsta skipti í þrjár vikur hlæja í dag en við fórum á SKB-styrktartónleikana og þar birtist Sveppi (uppáhald)á sviðinu og það heyrðist smá hlátur hjá minni sem gladdi mömmu-hjartað endalaust mikið og svo fór hún uppá svið ásamt pabba sínum og SKB-vini og tóku þau á móti ávísuninni og þá átti móðirin erfitt með tárakirtlana.  Yndisleg stund!  Við bjuggumst alls ekki við því að hún myndi geta staðið uppúr hjólastólnum og labbað smá en hún ÆTLAÐI sér sko að gera þetta og það tókst, hvað þá að vera alla tónleikana en vanalega dugar hún ekki í hálftíma í heimsóknum sem við höfum farið í um jólin en hún skemmti sér bara ágætlega þó svo hún hefði dormað í smá tíma (enda hver dormar ekki við einhverjum rólegum lögum með Jónsa í Svörtum fötum) og farin að kvarta í lokin enda mikill hávaði.

Já elsku besta Maístjarnan mín liggur mest megnis fyrir og er ekkert ofsalega kát með lífið en vonandi byrjar nýja árið betur.

Það sem stóð mest uppúr hjá mér árið 2010 var draumaferð Maístjörnu minnar sem átti að verða fermingargjöfin hennar og við hefðum ekki farið í nema því hún greindist aftur í maí.  Ég vona svo heitt og innilega að við fáum góðar fréttir þann 1.febrúar nk svo að nýjar ári geti byrjað vel.

Núna ætla ég að kúra með minni elskulegustu sem var reyndar að vakna en Blómarósin fór í næturgistingu til Evu frænku (systurdóttir mín) en það þarf aðeins að passa hana þessa dagana/vikurnar og mömmupungarnir nýsofnaðir en það er sko engin regla í þessu blessaða jólafríi.  Væri reyndar til í að sjá mína Maístjörnu spennta annað kvöld einsog hún er alltaf á þessu kvöldi, eldri mömmupungurinn er tilbúinn með ipodinn því hann ætlar að loka sig inní herbergi með afa Hinrik á meðan það er skotið upp, Blómarósin mín ótrúlega spennt að halda á nokkrum ljósum og yngri pungurinn er hrikalega spenntur að fá "henda" sprengjunum einsog hann segir sjálfur.  ...frekar ólíkir bræður. 

Gleðilegt árið!!

Ein af mér og Maístjörnunni minni áramótin 2006/2007
20061231214211_5


Þreytt Maístjarna

Vávh ég hef ætlað að skrifa hérna fimmtán sinnum í dag en hef bara ekkert að segja nema að Maístjarnan mín er virkilega þreytt og sefur meira og minna allan sólarhringinn.  Reyndi að gleðja sprengjuóða barnið mitt með stjörnuljósi en það virkaði ekki og þá er nú mikið sagt.Frown 

Hérna er ein af Blómarósinni minni á jóladag.
CIMG0087 [1280x768]

...og af henni ásamt íþróttaálfinum sem við hittum á spítalanum fyrir jólin, ekki margir sem fá að fara í splitt með honum hvað þá á mynd.Wink

PC160089 [1280x768]


23.desember

Þorlákur í dag ef það fór framhjá ykkur og Maístjarnan mín sýnir ENGA tilhlökkun bara grætur og segir "mér er svo illt allsstaðar".  Mömmuhjartað í molum.  Næturnar eru ennþá hrikalegar þó svo við erum búin að fá tvennskonar lyf til að prufa á hana á næturnar en það virkar enganveginn svo foreldrarnir eru komnir með bauga niðrá tær sem er miklu betra en að vera svona kvalin.  Svo grætur hún ennþá meira "mamma ég er alltaf svo lasin".  Þetta er erfiðast í heimi!  Hún neitar að taka verkjatöflur þar sem hún er komin með uppí kok af þeim sem ég skil alveg svo það er spurning um að fá eitthvað annað hjá doktornum til að lina kvalirnar hennar. (reyndar að bíða eftir símtali frá honum)

Þetta er virkilega ósanngjarnt!  Vanlíðan er hrikaleg!  Andskotans, helvítis, já ég leyfi mér að blóta aðeins.  Mig langar bara að sjá hana spennta einsog systkin sín, vera alveg tryllt af spenning en henni gæti ekki verið meira sama.Frown

Eigið annars gleðileg jól.....


"Fyrstu skrefin"

Má tli með að deila með ykkur þessari slóð http://mbl.is/frettir/sjonvarp/54026/ en þarna eru stelpurnar mínar í smá viðtali í sjónvarpinu hjá mbl.  Þær eru allavega meða það á hreinu hvað þeim langar í jólagjöf.

Mikil vanlíða

Maístjörnunni minni líður ekkert svakalega vel á þessum sterum, maginn orðinn svo útþaninn, mikil bjúg í kinnunum, andadrátturinn mjög þungur, henni er svo illt, svöng, þyrst og þreytt.  Er hægt að líða eitthvað verr?  Fengum smá fyrir svefninum hennar í gær en það dugði til hálf fjögur í nótt en þá vorum við mæðgur mættar frammí stofu að borða morgunmat (þar að segja Þuríður) og horfa á teiknimyndir og ég sat rangeygð í lazy boynum á meðan.  Hún er ótrúlega óhamingjusöm þessa dagana einu skiptn sem ég sé hana brosa eða hlæja er þegar við mætum á leikstofuna uppá spítala enda höfum líka gert það á hverjum degi, bara til að sjá smá bros á minni.  Logi Geirs handbolta-stjarna mætti einmitt þangað í gær ásamt gluggagægir vini okkar (sá allra skemmtilegasti jólasveinn sem ég hef hitt), Friðrik Dór söng nokkur lög og svo Birgitta Haukdal en hún tók smá viðtal við stelpurnar mínar sem mun koma í "fyrstu skrefin" á mbl.is.  Ísland í dag var líka á svæðinu og tók viðtal við okkur mæðgur og ég veit ekki hvort það komi í kvöld?

Já það er mikil vanlíða hjá Maístjörnunni minni, engin tilhlökkun í gangi gagnkvart jólunum eða hún sýnir það allavega ekki.  Mig langar bara að fá Þuríði mína tilbaka, mig langar svo að henni fari að líða vel, mig langar að sjá hana glaða, leika sér í nitendo sem hún elskaði en hefur ekki snert síðan hún lamaðist eða byrjaði á sterunum.  Við munum minnka sterana á miðvikudag svo vonandi mun henni þá allavega líða betur á gamlárs sem er hennar uppáhalds kvöld, sjá öll ljósin og lætin en í dag þolir hún ekki mikin hávaða eða áreiti.

Blómarósin mín dettur líka aðeins niður við að sjá systir sína einsog hún er í dag en hún gerir líka allt til að láta henni líða vel eða reyna fá hana til að brosa.  Þuríður mín neitar t.d. að taka sterana sína og magatöflurnar en systir hennar hvetur hana endalaust mikið til að reyna taka þau inn og hrósar henni fyrir að vera dugleg en það virkar nánast EKKERT (og þá er nú mikið sagt).  Þuríður mín gæti ekki verið heppnari með systir sem er alveg yndislega góð við hana.  Mig langar líka að sjá hana aðeins glaðari.

Þetta er allt saman SKÍTT og erfitt, maður er gjörsamlega búin á því en það er ekkert í boði að leggjast eitthvað niður bara standa upp og hvetja Maístjörnuna mína áfram. 


Var á vaktinni í nótt

Ástandið á minni elskulegustu er bara svipað og síðustu daga nema mér finnst ég sjá að lömunin sé að koma aftur þannig mín ætlar að hitta einhverja lækna uppá spítala á morgun þar sem ég neita að minnka steraskammtinn á miðvikudaginn ef þetta er raunin.  Jú hún er algjörlega orku- og kraftlaus, það er ca klukkutíminn sem hún dugar en svo verður hún að leggjast fyrir og hvíla sig aðeins.  Við kíktum einmitt á jólasýninguna í Smáralindinni áðan og eftir tuttugu mín þá vildi Maístjarnan mín fara því henni leið bara ekkert of vel þarna.  Mikill hávaði og áreiti er eitthvað sem fer ekki vel í hana þannig núna liggur hún uppí rúmi sofandi.

Ég var á vaktinni í nótt með henni og það var ræs um tvö og við fórum þá að sjálfsögðu fram til að fá eitthvað gott í gogginn og svo var horft á teiknimyndir í tvo tíma eða þegar Maístjarnan mín var tilbúin að fara aftur uppí rúm að hvíla sig.

Já þetta eru virkilega erfiðir dagar hjá henni og manni líður ofsalega illa að horfa á hana einsog hún er, hún skilur að sjálfsögðu ekkert í því afhverju henni líður svona.


Svefnlausar nætur

Þá eru það svefnlausar nætur, sterarnir farnir að bögga nætursvefninn hjá Maístjörnunni minni og foreldrarnir fagna því ekkert rosalega mikið.  Þannig núna byrja vaktaskipti með henni á nóttunni en í nótt vakti hún frá hálf tvö til ca fjögur/hálf-fimm og nær sér bara enganveginn niður, vill bara borða því hún er ALLTAF svöng einsog hún segir sjálf.  Hún er líka alveg einsog foreldarnir rangeygðir af þreytu enda nær hún sér bara enganveginn niður og svo stutt í þráðinn hjá henni en við reynum að stytta dagana aðeins hjá henni með að fara á smá skemmtanir uppá barnadeild og núna er Blómarósin komin í jólafrí svo hún fær að njóta þess líka sem henni finnst ALLS EKKI leiðinlegt.  Í gær hittum við t.d. íþróttaálfinn og Sollu stirðu sem þeim fannst hrikalega gaman einsog þið sjáið á myndunum:
PC160087 [1280x768]

PC160089 [1280x768]
Blómarósin tók auðvidað smá splitt með íþróttaálfinum.
PC170007 [1280x768]
Við fórum svo aftur á leikstofuna í morgun og þar var jólasveinninn eitthvað að fíflast við Maístjörnuna mína.
PC170013 [1280x768]
Gaf svo Blómarósinni minni pússluspil sem henni fannst ekkert leiðinlegt að fá.
PC160102 [1280x768]
Aðaltöffararnir í sveitinni kíktu svo á jólaball með okkur útí skóla í gær, Hinrik var svo ótrúlega fúll við mig í morgun þegar hann fékk ekki að fara í leikskólann með bindi.

Annars yndisleg helgi framundan, mikið að ske og vonandi hefur Maístjarnan mín orku í þetta allt saman en orkan er ekki vön að endast nema kanski í klukkutíma í einu.

Eigið góða helgi...


Þreytt, svöng, þyrst og kvalin.

Er hægt að líða verr en það?  En svoleiðis líður litlu Maístjörnunni minni þessa dagana og mikið finn ég til með henni og ég get ekkert gert fyrir hana nema vera til staðar og knúsað hana.  Það er farið að myndast mikið bjúg á andlitinu hennar vegna steranna en hún kvartar ekkert undan því, hún fær bara allar aukaverkanir sem hægt er að fá vegna þeirra og er alls ekki að fíla það og ekki ég heldur.  Hún er endalaust svöng svo ég eyði mestum hluta af deginum að útbúa mat handa henni því einsog hún segir sjálf "mamma ég er alltaf svo svöng, þyrst, þreytt og illt".  Ég er samt ótrúlega glöð hvað hún er dugleg að láta mig vita hvernig henni líður en það er ákveðið þroskastig hjá henni, hún er dáltið pirruð þessa dagana (vegna sterana) en lætur það ALLT bitna á pabba sínum og afa Hinrik en sem betur fer eru þeir með breytt bak og skilja að sjálfsögðu hennar líðan.  Einsog hún og afi hennar eru góðir vinir og hún dýrkar að fíflast í honum þá lætur hún allt fara í pirrurnar á sér og hann má varla segja orð við hana.

Dagarnir líða mest þannig að hún liggur fyrir eða þegar við förum út þá situr hún hjólastólnum sínum enda finnst henni vont að labba en getur það samt alveg, við reynum líka að vera duglegar að kíkja uppá barnaspítala á leikstofuna til að lyfta henni aðeins upp og svo er "skólinn" hennar (sá allra besti) duglegur að kíkja í heimsókn sem er alveg ÆÐI.

Bestu kveðjur til ykkar allra og TAKK fyrir öll fallegu mailin sem þið hafið sent mér sem eru yfir fjögur hundrum og þá er ég ekkert að grínast, þau gefa mér endalaust mikið(getið ekki ímyndað ykkur).  Núna er komin tími fyrir okkur mæðgur að kíkja í heimsókn uppá Barnaspítala.


Komin heim í sveitina...

Elsku bestasta og flottasta Maístjarnan mín er komin heim í sveitina og mikið er ljúft að vera komin heim.  Það komu endalaust margir gestir í heimsókn til hennar á spítalan, bekkjar- og skólasystur voru duglegar að heimsækja hana, kennarar hennar, skólastjóri og fullt af ættingjum en fólkið okkar einmitt spyr oft í gegnum veikindi Maístjörnu minnar hvað það geti gert fyrir okkur?  Jú það er einmitt að koma í heimsókn sérstaklega þegar maður er fastur á spítalanum því það styttir daginn um heilan helling.

Dagurinn sem hún var að lamast var ótrúlega erfiður, þetta gerðist allt svo hratt og það rifjaðist upp margar erfiðar minningar en sem betur fer er hún á uppleið.  Hún er núna á stórum steraskammti sem á að minnka bólgurnar í æxlinu og á móti fær hún kraftinn sinn aftur sem er allur að koma tilbaka, hún er ennþá mjög þreytt og kraftlaus svo við tökum bara einn dag í einu. Hún getur, hún ætlar og hún skal. 

PC115033 [1280x768]
Hérna er fallega Maístjarnan mín á Geysi í gær en í september þá ákváðum við að panta okkur á fjölsk.jólahlaðborð á Geysi ásamt foreldrum mínum og við ákváðum að sjálfsögðu að standa við okkar plön og gistum í sumarbústað í Miðhúsaskógi.  Hún var ótrúlega spennt að fara enda ótrúlega skemmtileg skemmtun þar sem börnin fengu að hitta jólasveinana líka, hún hafði ekki mikla orku í þessa skemmtun eða ca klukkutíma en allt þess virði að lyfta okkur aðeins upp.
PC115035 [1280x768]
Hinrik minn fylgist spenntur með jólasveinunum sem hann er mjög hrifinn af líka fyrsta sinn sem drengurinn setti skóinn útí glugga og skilur náttúrlega ekkert í því afhverju það var eitthvað í honum þegar hann vaknaði.  Hann kippir sér ekkert mikið upp vegna veikinda stóru systur nema þegar ég brotnaði  niður á sunnudeginum og þá leið Maístjörnunni minni alls ekki vel, hálf meðvitundarlaus og farin að lamast hratt þá var mamma að knúsa mig en hún mátti það sko ekki, hann ýtti henni í burtu knúsaði mig, klappaði mér á bakinu og sagði "svona, svona".  Elsku litli mömmukarlinn minn, fann að mömmu sinni leið ekki vel.
PC115052 [1280x768]
Oddný Erla mín var eina sem vildi fá mynd af sér með jólasveininum.  Þessi stúlka er alveg ótrúleg, þvílík væntumþykja sem hún sýnir systir sinni sérstaklega daginn sem hún var að lamast þá sat hún yfir henni nánast allan tíman.  Þær eru einsog tvíburar, ótrúlega tengdar og oft með þessa "tvíburatakta".  Þær eru bara ótrúlega heppnar að eiga hvor aðra að.
PC115046 [1280x768]
Þó svo að eldri mömmupungurinn minn nálgist 5 ára aldurinn þá er hann ennþá skíthræddur við jólasveininn, hérna er hann að passa sig að hann komi ekki of nálægt sér.  Hann fékk einmitt 80 púsla púsl í skóinn í morgun og var að klára það, hann er þvílíkur snillingur þessi drengur en veikindi stóru systur fara dáltið í hann en hann sýnir það á þann hátt að hann verður dáltið erfiður í skapinu og það bitnar á okkur foreldrunum.  Hann er einmitt alveg öfugur við Blómarósina, hún verður döpur og brotnar auðveldlega niður en skapið hans verður "erfitt".

Núna langar mig bara að óska ykkur gleðilegra jóla svona rétt áður en ég loka og set lykilorðið.  Vonandi fer ég að finna jólaskapið mitt aftur sem datt alveg niður þegar Maístjarnan mín var lögð inná spítala fyrir viku síðan.

Takk fyrir öll fallegu kommentin, þau gefa mér ofsalega mikið en þá er líka aftur á móti mög auðvelt að brjóta mig niður með leiðindar kommentum.  Kanski myndi ég taka þessu öðruvísi ef það væri ég sem væri veik en það er bara litla/stóra barnið mitt sem er að berjast og þá er líka auðvelt að brjóta mig niður, JÁ mér finnst þetta virkilega erfitt en sem betur fer eigum við líka gott fólk sem hjálpar okkur í gegnum þetta og við stöndum saman ég og Skari minn.  Gæti þetta ekki án hans.


Næsta síða »

Nýjustu myndböndin

Þuríður í vaskbaði :)

Hinni rokk

Jólakveðjan 2010

Stóra leyndarmálið

Það vantar ekki taktana :)

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband