Leita í fréttum mbl.is

Það sem mig dreymdi..... -Óskar skrifar

Ég hef ekkert að segja í dag, finnst allt svo ómöglegt þannig ég leyfa Skara að eiga orðið í dag. Endilega ekki gleyma knúsunum og segja hvað ykkur þykir vænt um hvort annað það er svo ofsalega dýrtmætt.

Óskar skrifar:
Mikið eru þetta erfiðir dagar, mér finnst eins og ég sé gjörsamlega að springa.  Það eru margir sem segja við mig þessa dagana að ég sé svo sterkur og standi mig svo vel.  En draumar mínir eru ekki að rætast.  Draumur minn um gott líf er ekki að rætast og ég get ekkert gert til að breyta því.

Fyrir nokkrum árum byrjaði ég að vinna hjá Sundsambandinu og fann það fljótlega að það var starf sem átti virkilega vel við mig.  Mér fannst ég vera að gera góða hluti í starfinu og fann að fólk var ánægt með mig.  Draumur minn um frama í starfi innan íþróttahreyfingarinnar var að fæðast og mér fannst ekkert geta stöðvað mig, mér fannst ég vera á heimavelli.

Fjölskylda mín hefur alla tíð verið það dýrmætasta sem ég á.  Ég á yndislega foreldra sem hafa alltaf staðið þétt við bakið á mér, verið stollt af mér og hvatt mig áfram með öllum þeim ráðum sem þau áttu.

Á þeim tíma sem ég var að hefja störf hjá SSÍ vorum við Áslaug að hefja okkar líf saman og fundum það strax að við áttum okkur sameiginlega drauma, drauma um stóra og samheldna fjölskyldu, fjölskyldu eins og við höfðum bæði alist upp með.  Lífið lék við okkur og eftir frekar stutt kynni áttum við von á okkar fyrsta barni, hamingjan réð ríkjum, draumar mínir voru allir að rætast.

Í dag eigum við Áslaug þrjú yndisleg börn og er fjölskylda mín ennþá það dýrmætasta sem ég á, draumar mínir hafa svo sannarlega ræst þar.  En það er stór skuggi sem hvílir yfir öllu, skuggi sem mér finnst stækka og stækka og í dag segir hjarta mitt mér að skugginn muni aldrei hverfa, hann mun fylgja mér alla mína ævi.

 dag er ég í frábæru starfi og innra með mér trúi ég því að mér sé ætlað eitthvað merkilegra en draumar mínir höfðu ætlað mér.  Ekki misskilja mig, ég er mjög stoltur af starfi mínu en ég óska þess svo heitt að ég hefði aldrei komist í þá stöðu að eiga tilkall til þess að starfa fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna.  Ástæðan er einföld, það er enginn ráðinn til þessa félags nema hafa verið í þeim sporum að eiga barn sem glímir við þennan ógeðslega sjúkdóm.  Ég vildi óska þess að foreldrar mínir gætu verið stolltir af mér fyrir það sem mig dreymdi um að verða. 

Vinna mín í dag er ofboðslega gefandi og eins og ég hef skrifað hér áður þá er þetta félag að gera rosalega góða hluti fyrir fólk sem stendur frammi fyrir hræðilegum sjúkdómum.  En starfið getur líka verið erfitt, hræðilega erfitt.  Í dag er ég að fara í jarðaför ungrar stúlku sem tekin var frá fjölskyldu sinni, stúlku sem í blóma lífsins þurfti að glíma við krabbamein sem að lokum hafði betur.  Fyrir aðeins nokkrum vikum var ég viðstaddur aðra jarðaför þar sem önnur stúlku, aðeins 9 ára gömul hafði einnig þurft að lúta í lægra haldi eftir stutta en hetjulega baráttu.  Mörg börn til viðbótar eru að heyja sína baráttu við krabbamein og sum hver mjög erfiða baráttu, þar sem brugðið getur til beggja vona.  Dóttir mín er eitt þessara barna og hefur okkur verið sagt að litlar líkur séu á því að hún muni sigra.  Hugsunin ein er skelfileg, mér finnst ég raunverulega vera að springa, ég hefði ekki getað trúað því að lífið væri svona ósanngjarnt.

Ég vildi óska þess að ég væri að standa mig vel í því sem mig dreymdi um.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Óskar og fjölsk  Þuríður Arna er í mínum bænun gangi ykkur vel og haltu í drauma ykkar bestu kveðjur frá Hafnarfirði

Guðsteina SHingur (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 10:42

2 identicon

Elskulega fjölskylda ég bið fyrir ykkur er búin að kveikja á kerti fyrir ykkur líka heima hjá mér ég mun kveikja á því á kverju kvöldi.Drottinn blessi ykkur.Kveðja ókunnug.

ókunnug (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 10:43

3 identicon

Kæra sterka fjölskylda..ég hef ekki áður skrifað hér inn,en búin að fylgjast með ykkur í dágóðan tíma og dáist af styrk ykkar og hetjuskap.Ég þekkti bæði Ástu Lovísu og Lóu blómarós í gegnum ljósið sem er styrktar-endurhæfingarstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra og þar er rosalega gott að koma og samhæfa reynslu,styrk og vonir.Ég vona svo sannarlega og bið fyrir því að litla hetjan ykkar upplifi kraftaverk og nái bata.Ég get ekki ýmindað mér hvernig það er að berjast fyrir lífi barnsins síns,en það er örugglega það erfiðasta sem hægt er að gera í þessu lífi.Ég hef sjálf háð mína baráttu síðustu 15 mán.og veit hvernig það er,en guð gefi ykkur kraft og styrk og ég mun halda áfram að fylgjast með litlu hetjunni og hafa ykkur í mínum bænum.Baráttukveðjur Björk Andersen ljósinu,Neskirkju

Björk Andersen (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 10:48

4 identicon

Elskulega fólk mikið finn ég til með ykkur það eitt að hafa barnið sitt svona veikt er alveg skelfilegt. Maður skilur ekki alltaf tilgang lífsins, hvers á svona lítið barn að gjalda. Og í sambandi við drauma ykkar þá veit ég með vissu að þið gerið eins vel og þið getið, en því miður fá ekki allir  góðir draumar að rætast. Það hef ég sjálf reynt. En með bænum og góðum óskum fyrir ykkur öll vona ég af alhug að litla tátan ykkar fái að njóta þess í mörg, mörg ár að gera það sem hana langar til og að draumar hennar og ykkar megi rætast. Kveikti á kerti fyrir ykkur. Gangi ykkur vel í dag. Ég veit það verður erfitt. Hlýjar kveðjur og bænir að norðan ykkur öllum til handa. Kona

kona að norðan (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 10:51

5 identicon

Kæri Óskar

Það er mikil kvöl að standa ráðþrota gagnvart vágesti eins og krabbameini. Ég hef eins og svo margir misst mína nánustu eftir glímu við þennan sjúkdóm. En það hefur allt verið fullorðið fólk og hvert tilfelli er einstakt og tekur mjög á. Með fullri virðingu fyrir þeim fullorðnu sem látist hafa þá er örugglega margfalt erfiðara að horfa á litla barnið sitt með þennan sjúkdóm en nokkurn fullorðinn. Ég reyni ekki að setja mig í þín spor og mér finnst ekkert skrítið þó að þú sért að bugast undan þeirri hvatningu að þú sért svo sterkur. Þú ert í raun afar veikburða nú um stundir og ekkert athugavert við það. Keðjan er ekki sterkari en veikasti hlekkurinn og meðan hún slitnar ekki þá er hún sterk. Ég bið til Guðs að keðjan þín haldi í þeim ólgusjó sem þú ert staddur í og skip þitt nái landi. Skugginn verður til staðar og annað ekki hægt, en hann verður ekki eins áberandi þegar frá líður. Þannig  er lífið.

Þínir draumar um góða fjölskyldu standa óhaggaðir eftir sem áður, því hvenær reynir meira á samhenta fjölskyldu en í svona baráttu. Þuríður Arna verður ávalt hluti af þinni fjölskyldu hvernig sem mál skipast.

Guðs blessun ykkur öllum til handa

Fríða

Fríða (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 11:09

6 identicon

Elsku Áslaug og Óskar

Drottinn bænheyrir ykkur og sendi alla krafta og orku til ykkar

Eins og ég hef alltaf sagt þá eru þið mjög einstök og Óskar þú ert í réttu starfi því það sem þú gefur af þér er allveg sérstakt. Það er erfitt að horfa uppá barnið sitt veikt en þið hafið alltaf passað uppá að hafa nóg að gera fyrir ykkur öll þannig að haldið því áfram þetta gefu ykkur svo mikið . Elsku hjón ég vildi að ég gæti gert einhvað til að taka þessi veikindi frá henni Þuríði en það sem ég get gert er að biðja og það get ég gert með glöðu geði og vona að Guð muni bænheyra mig

kveðja Ása 

ása (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 11:12

7 identicon

Höfum ábyggilega öll staðið sem börn og sagt :: "Ég ætla að verða lögga eða konan í búðinni" draumar okkar stækka síðan bara meira og meira með lífinu og aldrinum. Síðan með hækkandi aldri og vitneskju verðum við fyrirmyndir, fyrir ykkar óbilandi trú, baráttu og vilja .. eruð þið mikilfenglegar og fallegar fyrirmyndir..

Bergrún Ósk (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 11:17

8 identicon

"Lærðu af gærdeginum, lifðu í dag, óskaðu morgundagsins"

Bergrún Ósk (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 11:18

9 identicon

Óskar minn ég er vissum það að fjölskylda, vinir og aðrir sem fylgjast með ykkur Áslaugu eru ekkert annað en stolt af ykkur. Það er mikið á ykkur lagt og elsku Þuríði Örnu og eflaust vakna spurningar eins og afhverju við og enginn getur svarað því. En ég trúi því að guð einn hafi það svar og ég mun halda áfram að biðja fyrir ykkur og hvet alla til þess það til þess að sameinast í bæinni um betri líðan fyrir ykkur öll. Hlý og góð kveðja til ykkar.

Unnur

unnur Einarsdóttir (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 11:19

10 Smámynd: Þórunn Eva

Elsku Óskar, Áslaug og Börn....

STÓRT KNÚS Á YKKUR......

þið eruð í bænum mínu dag sem nótt.....

Þórunn Eva

Þórunn Eva , 12.6.2007 kl. 11:30

11 identicon

Elsku Óskar og Áslaug,

Hef ekki lagt í vana minn að skrifa ykkur en fylgist með af hliðarlínunni, bið fyrir Þuríði Örnu ykkar eins og Kára Erni mínum. Núna finnst mér eins og þið séðuð að hrópa á hjálp.   Ekki bara frá almættinu heldur okkur öllum hinum líka.....en það er takmarkað sem við venjulega fólkið getum gert til að bæta aðstæður ykkar. Ég mun þó áfram biðja fyrir ykkur, óska og vona með ykkur að þið fáið kraftaverk, og gleðjast með ykkur yfir hverjum einasta degi sem þið hafið öll börnin þrjú með ykkur. 

Ekki hætta að eltst við draumana, og ekki missa vonina. Vonina getur enginn tekið frá ykkur nema þið sjálf. 

kveðja, Erna

Erna (Mamma Kára Arnar) (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 11:33

12 identicon

Biðjum fyrir ykkur og sendum ykkur RISA búnt af orku og bjartsýni.

Baráttukveðjur og risa knús kv Guðrún og co.

p.s við kveikjum á kerti og biðjum fyrir kraftaverki.

Guðrún Bergmann (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 11:52

13 identicon

Elskulega fjölskylda !

Sendi ykkur knús og góðar hugsanir.  Hef fylgst með ykkur lengi og ef ég ætti eina ósk sem ég gæti fengið uppfyllta þá myndi ég gefa ykkur hana.  Já það eru margir sem standa í baráttu fyrir lífi sínu, alls staðar eru sorgir og sigrar.  Þess vegna er svo nauðsynlegt að stoppa við og hugsa sig um og það gerði ég eftir að ég "kynntist" ykkur og baráttu ykkar.  Ég ber ómælda virðingu fyrir ykkur og dáist af ykkur hvern dag. 

Það er erfitt að vera fullur af vanmátt og vera að reyna að standa sig vel alla daga og þið þurfið þess ekki.  Það sem skiptir mestu máli hjá ykkur er dagurinn í dag og dagurinn á morgun.  Draumarnir skipta kannski minna máli og munið þið eigið gott líf en það er erfitt, svo endalaust mikil brekka.  Allt sem þið hafið kennt öðrum er virðingarvert, fallegt og svo endalaust ekki sjálfsagður hlutur.  Ég sem horfi á líf ykkar með augum hins ókunnuga er og verð ykkur ætíð þakklát, þið hafið kennt mér að elska skilyrðislaust en um leið er ég sorgmædd yfir því að geta ekki gert eitthvað fyrir ykkur og litlu hetjuna ykkar.  Þið standið ykkur gríðarlega vel og hugsið vel um börnin ykkar öll og þetta verkefni sem þið eruð að vinna hefur kannski einhvern tilgang þó að manni finnist það ekki eiga að vera þannig.

Þið elskið skilyrðislaust og það hjálpar ykkur með daginn í dag og daginn á morgun.  Við hin höfum ykkur í bænum okkar, tendrum ljós fyrir ykkur og sendum ykkur góða strauma og þannig hafið þið kennt okkur að elska betur náungann jafnvel með augum hins ókunnuga og það eitt er mjög merkilegt þó að það sé kannski ekki hluti af draumum ykkar.

Guð blessi ykkur og passi upp á ykkur alla daga

kveðja 4 barna mamman

4 barna mamma (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 12:07

14 identicon

Gud blessi ykkur, elskulega fjölskylda, og gefi ykkur thrótt og styrk.

Baráttukvedjur frá Ragnheidi 

Ragnheidur(ókunnug) (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 14:29

15 identicon

Kæra fjölskylda sem ég þekki ekki neitt.

Óskar skrifar af hjartans einlægni í dag eins og þið bæði gerið dags daglega.

Meðal annars skrifar hann þetta: Ég vildi óska þess að ég væri að standa mig vel í því sem mig dreymdi um.

Þú Óskar og þið bæði eruð örugglega að standa ykkur vel í því sem ykkur dreymdi um, ég sé það á síðunni ykkar að þið eruð samhent fjölskylda og eigið góða að. En það er ekki í framtíðardraumum nokkurs einasta manns að þurfa að horfa upp á barnið sitt eða aðra ástvini berjast við hræðilega sjúkdóma því það er algjör martröð. Ég mun fylgjast með ykkur áfram og ég trúi því að hlýjar hugsanir mínar og fjölmargra annarra nái til ykkar og styðji ykkur í þessari miklu martröð sem hefur verið lögð á herðar ykkar. Æðruleysisbænin góða hefur oft hjálpað mér í mínum raunum og set ég hana hér inn um leið og ég sendi ykkur hlýjar kveðjur úr Borgarfirði.

Guð gefðu mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.

Arndís (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 15:53

16 identicon

Elsku fallega fjölskylda!!

Nú hef ég ekki lesið hjá ykkur lengi og finnst hræðilegt að sjá þessar fréttir sem ykkur bárust nýlega um elsku fallega engilinn ykkar!

Þið eruð öll 5 með tölu ótrúlega sterk og dugleg og ég veit að þið eigið eftir að eiga yndislegan tíma með hetjunni ykkar, og helst bara sem allra lengstan!! Einsog Áslaug segir hér í færslunni á undan, að hún fái að gera allt það sem mamma er búin að gera, og helst bara meira en það :o)

Gangi ykkur vel í meðferðinni sem framundan er!

Ég mun hafa ykkur í bænum mínum og sendi ykkur alla þá orku sem ég má sjá af, og mun biðja mitt fólk að gera slíkt hið sama.

Knús og kossar til ykkar allra!!

Kv.

Erna Kristín Ottósdóttir

Erna Kristín (úr sundinu í Fjölni) (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 16:46

17 identicon

Elsku Áslaug og Óskar.

Ég verð bara að fá að segja það að þið eruð að standa ykkur alveg ótrúlega vel. Maður þarf ekki alltaf að vera sterkur, álagið sem hvílir á ykkur foreldrum Þuríðar er alveg gífurlegt. Þetta getur ekki verið auðvelt það sér hver maður. Börnin okkar eru það dýrmætasta sem við eigum og líf án þeirra er bara ekki hægt að hugsa það neitt lengra. Samt sem áður verðum við að trúa því að hún eigi möguleika auðvitað verður maður samt að vera raunsær. Vonin er svo sterk og það að trúa því innst inni sínu hjarta að en sé von fleytir manni ótrúlega langt. Ég er að reyna setja mig í spor ykkar, ég veit það samt sem áður að það getur enginn þó maður reyni. Hræðslan og kvíðinn er án efa óbærileg. Veit ekki hvað ég get sagt, nema það að ég finn ofsalega mikið til með ykkur og vildi óska að ég gæti linað þjáningar ykkar. Vona það besta fyrir fallegu hetjuna ykkar. Þið eruð fallegar og góðar sálir. Megi guð vaka yfir ykkur og vernda. Bestu kveðjur ftá Siggu Ásgeirsd.

Sigga Ásgeirsd. (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 18:54

18 identicon

Elsku fallega fjölskylda - þið eruð ótrúlegar hetjur. Þið eruð í bænum mínum og vona að ykkur hlotnist eitt stykki kraftaverk - því þau gerast. Þið eruð innblástur fyrir svo marga - kennið okkur hinum að taka engu sem sjálfsögðum hlut. Takk fyrir það. Sendi alla mína engla til ykkar

Pálí (ókunnug) (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 19:10

19 identicon

Kæra Áslaug og Óskar.

Ég kíki mjög oft hérna við á bloggsíðu ykkar fjölskyldunnar..

Elskulega dóttir ykkar er í bænum mínum og ég vonast svo innilega eftir kraftaverki fyrir elsku litlu stelpuna :)

Ég þekki ykkur ekki neitt en hugur minn er svo sannarlega hjá ykkur elsku fallega fjölskylda..

Reynið að hafa það sem best. 

Kveðja, Ella ókunnuga sem finnst hún þekkja ykkur .. 

Ella (ókunnug) (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 20:29

20 Smámynd: Þórunn Eva

Gangi þér vel í fyrramálið sæta :) hugsa til þín og vonandi ertu ekki enn svona kvíðin :)

koss og knús

Þórunn Eva , 12.6.2007 kl. 21:24

21 identicon

Elskulega fjölskylda. Hugur okkar er hjá ykkur.

Kkv. Martha, Aníta Björg og Andri Örn.

Martha Jörundsdóttir (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 21:34

22 Smámynd: Hugarfluga

Guð blessi ykkur, kæra fjölskylda.

Hugarfluga, 12.6.2007 kl. 22:01

23 identicon

Elskulega fjölskylda,ekki er nokkur leið að setja sig í ykkar spor, til að skilja þessa lífsgöngu sem þið eruð að upplifa,en kraftaverkin gerast , og DRAUMARNIR líka,stundum fara þeir hægt,stundum til hliðar, taka krókaleiðir en rata svo beina leið ,í öllum mínum bænum bið ég um það ,og óska ykkur sterka fallega fjölskylda að DRAUMARNIR ykkar komi beint til ykkar.Bið fyrir brosmildu stóru prinsessuni henni Þuríði Örnu,eins ykkur hinum í fjölskylduni.Kv.Hrönn. Ps.Munum að kveikja á kerti.

hrönn (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 22:23

24 identicon

Kæra fjölskylda.

Guð veri með ykkur og styrki ykkur í þessari baráttu.

Þið eruð þvílíkar hetjur svo samhent og dugleg.

Kveðja Silla Karen

Silla Karen (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 22:32

25 identicon

Sæl!

Þið eruð ótrúlegar hetjur, ég hugsa til ykkar oft á dag.  Mér finnst þið standa ykkur alveg ótrúlega vel og reyni ég að gefa ykkur góða strauma. 

kv Díana

Díana Guðjónsdóttir (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 23:14

26 identicon

Hefur nokkur sagt við þig að þú standir þig ekki vel?Það fer mikil orka í svona hugsanir,þú stendur þig vel án nokkurs vafa.Guð gefi þér nú auka kraft þú ert svo góður.

       Nokkur orð til að geyma:Sannleikurinn

                                              er harður húsbóndi

                                               sem stendur með þér 

                                                og gerir þig sterkan

                                                 að innviðum.      Gunnar Dal

                                            Opnaðu hugann

                                             því heimurinn

                                             hefur þér margt að sýna

                                             Opnaðu hjartað

                                              og eðli þitt

                                              og opnaðu sálu þína.

                                               Og læstum dyrum

                                                ljúktu upp

                                                og leyfðu sólinni að skína.              

Erla (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 23:53

27 identicon

Kæra fjölskylda.  Ég hef fylgst með ykkur af og til síðan að ég frétti af ykkur í gegn um Ástu Lovísu vinkonu mína.  Áslaug, þú kvittaðir einmitt hjá mér fyrir stuttu.  Maðurinn minn er af Skaganum og kannast við þig Óskar, hann heitir Ásþór.  

Það sem mig langar til að segja við ykkur að ég get skilið stöðu ykkar að hluta, þó kannski ekki að öllu leyti.  En þegar ég greindist með krabbamein var það fyrsta sem ég óttaðist um var sonur minn.  Ég hélt þetta væri bíldruslunni að kennna því útblásturinn lak svo mikið inn og óttaðist að hann gæti verið veikur líka.  Síðan áttaði ég mig á að sjúkdómur minn átti sér enn lengri sögu og allt í lagi var með son minn.  Þá þakkaði ég fyrir að það væri ég en ekki hann og nú þurfti ég aðeins að hafa áhyggjur hans vegna ef mín nyti ekki lengur við.

Fyrir stuttu lenti hann svo í hræðilegu slysi út í Austurríki.  Hann varð undir snjótroðara og fyrstu viðbrögð mín voru að falla saman í grátkasti og vita ekk mitt rjúkandi ráð.  Og svo fannst mér svo ofboðslega erfitt að hafa hann á spítalanum úti í 10 daga og ég heima á Íslandi.   Það var stór stund að taka á móti honum og þakka ég það svo innilega að hann er heill í dag. 

Ég vildi óska að sömu sögu væri að segja hjá ykkur.  Börnin okkar eru okkur allt og við myndum gera nánast hvað sem er til að geta gengið í gegn um þeirra veikindi í staðinn fyrir þau, ekki satt.   Pabbi minn lýsti eftir Pollý Önnu um daginn og það held ég að hafi farið að takast. Ég mæli endilega með að þið gerið slíkt hið sama.  Pollýanna er sú sem hjálpar okkur  krabbameinsveika fólkinu mest og vona að hún geti komið að góðum notum fyrir ykkur líka.  Við hin erum svo máttlaus gagnvart ykkur og maður hálf skammast sín að kvarta og kveina yfir veikindum fullorðinnar manneskju á meðan lítil börn eru að berjast fyrir sínu hvern einasta dag.  það er svo ósanngjarnt.

Hildur Sif Helgadóttir (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 00:28

28 identicon

Kæra fjölskylda

Það er ekki nokkur leið að setja sig í þau spor sem þið standið í nú. Ég dáist að styrk ykkar og æðruleysi en líka að einlægni ykkar, því að þið játið veikleika ykkar og sýnið að þið eruð mannleg...... og það er mannlegt að þjást við aðstæður eins og þessar. Ég sendi ykkur mínar allra bestu kveðjur með ósk um bata Þuríði ykkar til handa.

Dísa (ókunnug) (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 00:46

29 Smámynd: Matthias Freyr Matthiasson

Ég bið um Guðs blessun ykkur til handa

Matthias Freyr Matthiasson, 13.6.2007 kl. 11:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Nýjustu myndböndin

Þuríður í vaskbaði :)

Hinni rokk

Jólakveðjan 2010

Stóra leyndarmálið

Það vantar ekki taktana :)

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband