Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2014

Yndislegur afmælisdagur

Þuríður Arna mín fékk yndislegan afmælisdag - gæti ekki verið hamingjusamari með hann.  Hún er svo heppin að hafa verið með ótrúlega flottum stelpum í bekk í gamla skólanum sínum sem hún bauð í veislu til sín (14 stelpur) sem komu allar og gerðu daginn hennar ennþá betri.  Þar sem hún er ekki flutt úr hverfinu en samt komin í annan skóla þá reynum við að halda tengslunum við þær enda hrikalega góðar við hana - þó svo hún sé ekki að tengjast þeim á "bestu vinkonu hátt" þá gæti hún ekki verið heppnari.  Jú hún er langt á eftir þeim í þroska en það hefur samt ekki stoppað þær að vera svona við hana einsog þær eru - alltaf tilbúnar að leyfa henni að vera með, gera ekki grín af henni ef hún getur ekki eitthvað og svo lengi mætti telja.  Greinilega vel uppaldar þessar stelpur :) Þeim finnst greinilega ekkert sjálfsagðara en að gleðjast með henni.

Við grilluðum hamborgara handa þeim, þær grilluðu sér sykurpúða, fóru í ratleik um hverfið og þar spretti Þuríður Arna með þeim um hverfið - ótrúlega gaman að sjá hvað hún var dugleg í þeim leik.  Held að þær allar hafi skemmt sér jafn vel og Þuríður mín.

Fréttir af Þuríði minni - þá er hún ennþá krampandi, of oft að mínu mati.  Hún er alveg fljót að þreytast og leggur sig oft þegar hún kemur til afa síns eftir skóla.  Auðvidað er ég með STÓRAN hnút (það er stór stór steinn í honum sem mig verkjar í daglega) í maganum yfir agúst-mánuði en við ætlum að njóta þess að vera til þanga til og vonandi hverfur hnúturinn þá.  Hún telur niður dagana í Reykjadalinn.

Set svo inn tvær myndir - önnur er af stelpunum í afmæli Þuríðar minnar, grillandi sykurpúða og hin er af DraumaDísinni okkar sem er dýrkuð og dáð af öllum á heimilinu.
10304357_10152183993764611_4813317535750260832_n10301456_10203522940384360_5763684201814870518_n


Hún á afmæli í dag....

Elsku bestasta Þuríður Arna mín á afmæli í dag - hún er 12 ára gömul og hún ætlar að fagna deginum með því að fá "gömlu" bekkjarsystur sínar í afmæli, fara í ratleik með þeim um sveitina okkar, grilla hamborgara og sykurpúða.  Hún gæti ekki verið spenntari fyrir deginum.

Að sjálfsögðu var hetjan mín vakin með pökkum þegar hún vaknaði en hún er búin að telja í þennan dag síðan um áramótin.  Stúlkan sem átti ekki að verða 6 ára er orðin 12 ára gömul - mikið rosalega er ég stollt af þessari stelpu.

Hérna eru tvær myndir fyrir ykkur - önnur er af þeirri flottustu og hin er af pökkunum sem hún var vakin með í morgunsárið.
Þuríður Arna mynd 2 

10406766_10152181412704611_6475641151623687744_n

Nýjar fréttir.

Fengum símtal frá lækni áðan sem fór aðeins betur yfir þá niðurstöðu sem hann fékk eftir skoðun á myndunum sem teknar voru af höfðu Þuríðar í apríl. Í stuttu máli þá er staðan (eins og er) ekki alveg eins slæm og hún hljómaði eftir stutt símtal við hann sl. laugardag. Það er einhver blettur sem er í kringum 2mm að stærð sem vakti athygli hans núna og í fyrstu vissi hann ekki nema þetta væri nýr blettur sem hefði myndast. Myndirnar sem teknar voru síðast sýna hins vegar aðe...ins annað sjónarhorn af svæðinu en áður hefur sést og er læknirinn nú sannfærður um að þetta sé ekki nýr blettur heldur sami og áður (innan gamla æxlissvæðisins). Semsagt pínulítill blettur (rétt rúmlega títuprjónshaus) sem hefur verið til staðar en sést hins vegar skýrar núna því myndin er tekin frá örlítið öðru sjónarhorni (sneiðist öðruvísi).

Læknarnir hafa alltaf og munu alltaf hafa áhyggjur af því að mein Þuríðar geti tekið sig upp aftur og því eru þeir vel á tánum ef þeir sjá eitthvað nýtt sem gæti verið óeðlilegur vöxtur í.
Það verða teknar aftur myndir í ágúst og ástæðan fyrir því að það er ekki gert fyrr er að læknarnir telja að það gefi í raun engar nýjar upplýsingar að taka myndir strax aftur – og þeir telja þetta ekki vera akút – sem er auðvitað bara jákvætt.

Í framhaldi af næstu myndatökum verður tekin ákvörðun um hvort eitthvað þurfi að bregðast við. Þá verður metið hvort þessi blettur sé að stækka eða hvort þetta séu einhverjar leifar sem eru til friðs. Ef þetta er að stækka þá mun Þuríður aftur verða send í gammageislatækið í Svíþjóð og telur læknirinn engar líkur á öðru en að það verði góður árangur af þeirri meðferð – með litlum aukaverkunum.

Við erum auðvitað mjög ánægð með að þetta lítur ekki alveg eins illa út og það gerði um helgina en samt sem áður er þetta áminning til okkar um að fullur sigur mun líklega aldrei nást þrátt fyrir að góður árangur geti náðst í einstaka orustum. Við þökkum þá fyrir það að læknar Þuríðar eru á tánum og tilbúnir að taka upp bardagatækin þegar á þarf að halda.

Vona að þetta sé ekki of flókin útskýring á frekar flóknum hlutum. Takk fyrir allar góðar kveðjur og hugsanir sem hjálpa okkur að halda í vonina um að þetta hafi aðeins verið „false alarm“ – það fáum við að vita í ágúst.


Lífið er ekki alltaf sanngjarnt.

Laugardaginn síðastliðinn var ég stödd að horfa á drenginn minn hann Theodór Inga keppa í fótbolta þegar ég fæ símtal frá sérfræðingi Þuríðar minnar. Hann hafði loksins að kíkja á myndirnar hennar en hann var búin að vera í leyfi og fríi osíðan myndirnar voru teknar og málið er að það sáust breytingar á myndunum frá því síðast eða 2mm blettir sem hafa ekki verið áður. Hann er dáltið hræddur um að þetta sé farið afstað aftur - gat ekki staðfest þetta 100% fyrr en í næstu myndatökum sem verða samt ekki fyrr en í ágúst. Ekki spurja mig afhverju ekki fyrr - ég hafði ekki rænu á að spurja hann af því þegar hann tilkynnti mér þetta því ég brotnaði að sjálfsögðu niður og gat litlu "ropað" uppúr mér. En við erum búin að panta fund með honum.

Síðan hann tilkynnti mér þetta hef ég verið ofsalega lítil í mér, ég er hrædd, óglatt, ég er reið og svo lengi mætti telja.

Jú það hefði verið ofsalega gott að þetta hefði verið sagt strax eftir myndatökur (þó svo ég hefði viljað sleppa þessum fréttum og fá bara góðar fréttir) en ég er samt ekki reið útí neinn/neina sem gátu ekki lesið á þær eða færðu okkur góðu fréttirnar og ég vil heldur ekki fá nein skítköst hér undir um læknana (því þetta sást ekki fyrr) okkar þar sem ég/við gætum ekki verið glaðari með okkar fólk. Við erum öll mannleg og við erum heldur ekki fær um allt, við gerum líka öll mistök. Meira að segja ég - ég gleymi stundum að gefa Þuríði minni lyfin sín, jú ég er líka mannleg og geri mistök eða klikka á hlutunum. Auðvidað verð ég þá reið við sjálfan mig sérstaklega þegar hún fær krampa þann daginn sem gætu hafa komið vegna minna mistaka.

Já síðustu dagar eru búnir að vera ofsalega erfiðir - Þuríður mín sýndi fyrsta sinn tilfinningar(ef þið vitið hvað ég meina) þegar Oskar tilkynnti henni þessar fréttir og það var ofsalega erfitt. Fyrsta sinn sem hún brotnar niður og sú yngri er alltaf að reyna vera sterk fyrir hana en það hafðist ekki enda á hún heldur ekki að reyna það.

Ég skil ekki alveg "þennan þarna uppi" - hvað er málið?? Afhverju má hún ekki njóta þess að vera til án allra þjáninga? Afhverju þarf hún að berjast svona mikið? Afhverju má hún ekki njóta þess að vera barn? Afhverju, afhverju, afhverju??

Mig langar að öskra og ég er ofsalega kvíðin framhaldinu en sérfræðingurinn er strax búinn að plana að senda hana til Svíþjóðar í "gammahnífinn" ef þetta er einsog hann heldur. Ég er líka ofsalega glöð með það því við vitum að hann hefur virkað fyrir hana þó svo að aukaverkanirnar eru hreint helvíti.

Já munið að njóta lífsins og vera góð við hvert annað!! Einsog mitt mottó er - búa til eitthvað til að hlakka til og ég held því að sjálfsögðu áfram og hlakka til næsta afmælisdags enda eigum við fagna hverju ári sem við fáum.

Nýjustu myndböndin

Þuríður í vaskbaði :)

Hinni rokk

Jólakveðjan 2010

Stóra leyndarmálið

Það vantar ekki taktana :)

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband