Leita í fréttum mbl.is

Mánudagur 17.okt'06

Það er mánudagur 17.október’06.  Við Óskar vorum að koma á Barnaspítalann en við eigum fund við læknanna okkar vegna Þuríðar minnar en hún fór í sínar rannsóknir 11.okt.  Með réttu hefðum við átt að koma daginn eftir á fund með þeim en við báðum þá að fresta því aðeins því við ætluðum að gera eitthvað skemmtilegt helgina eftir og vildum ekki eyðileggja þá helgi ef við fengjum slæmar fréttir sem við töldum að við fengjum vegna þess hvað Þuríður mín var orðin veik.

Hjúkkan okkar kemur fram og vísar okkur inn í eitt viðstalsherbergið, eftir henni koma tveir læknar okkar.  Þau eru öll frekar „þung“ að sjá og óvenju róleg.  Mér verður óglatt, ég fæ verki um allan líkamann og langar mest að hlaupa útur viðtalsherberginu.  Eftir smá þögn þá heyrist í lækninum hennar Þuríðar minnar eða sá sem hefur fylgt henni frá því hún veiktist, „við höfum ekki góðar fréttir, æxlið hefur stækkað mjög mikið og núna í fyrsta sinn er hægt að skilgreina það illkynja“.  Mig langar að öskra en kem engu frá mér, mig langar að gubba en get það ekki enda hafði ég ekkert borða um morguninn vegna kvíða, ég berst við tárin en það er ekki hægt nema í sekóndubrot eftir að læknirinn hafði sagt þessa setningu.  Það fyrsta sem kom í huga minn var „hver hefur lifað af illkynja heilaæxli?“ Engin sem ég vissi um því við vitum líka bara alltaf af því slæma, við fáum aldrei að vita af kraftaverkunum, kanski vegna þess fólkið er svo hrætt um að það kraftaverk er tekið af þeim ef þau deila því?  Læknirinn heldur áfram „og við getum ekkert meira gert fyrir hana, hún mun hætta í lyfjameðferðinni sem hún er í því hún er ekkert að gera fyrir hana“.  Ennþá koma hugsanir mínar „ha ætla þeir bara að gefast upp, bara sísvona, það kemur ekki til mála“.  Ég spyr lækninn hvort þeir geta EKKERT gert meira, hvað með að hafa samband við þá í Boston og leita ráða hjá þeim sem jú þeir samþykktu, væntanlega bara til að róa okkur en létu okkur samt vita að það væru frekar litlar líkur á því að þeir gætu gert eitthvað.  Þeir voru alltaf búnir að segja að þeir gætu kanski skorið aftur en töldu það samt litlar líkur ef æxlið myndi stækka meira, bara ef það minnkaði en mér var alveg sama ég ætlaði ekki að gefast upp, hún Þuríður mín fær ekkert að fara frá mér.

 Hjúkkan okkar tekur við „hún Þuríður er ekkert að fara frá okkur á morgun en hún á mesta lagi nokkra mánuði ólifaða“ og það fyrsta sem ég hugsaði „hvernig í andskotanum getur hún sagt þetta?“.  Við höfum reyndar ALLTAF sagt við læknanna okkar að við viljum að þeir séu hreinskilnir við okkkur og ekkert að tala í kringum hlutina, við viljum aðeins heyra sannleikan og loksins þegar við heyrðum hann þá var hann of sár til að heyra.  Mig langar að klípa mig, mig langar að vakna af þessari martröð, þetta er ekki satt, Þuríður mín mun læknast, hún gefst ekki svo auðveldlega upp eða við.  Við finnum lækningu fyrir hana, hún getur, hún skal og hún ætlar.  Hjúkkan heldur áfram að tala „þið fáið svo að ráða hvar hún fær að eyða sínum síðustu dögum hvort sem það er hér á spítalanum eða heima“.  Hvað er hún að rugla hugsa ég strax, er ekki alltílagi?  „Hvar hún eigi að eyða sínum síðustu dögum?“  Hún er ekkert að fara frá okkkur, alveg sama hvað helvítis læknavísindin segja þá er þessi hugsun ekki í boði.

Ég er alltíeinu hætt að hlusta á læknanna, ég get ekki höndlað meir, augun mín eru næstum því það bólgin að ég var hætt að geta séð með þeim.  Mig langar að fara útur viðtalsherberginu NÚNA, mig langar að fara heim og knúsa Þuríði mína og segja henni að þetta verði alltílagi.

 Það síðasta sem ég heyrði frá hjúkkunni „þið getið fengið að hitta prestinn núna ef þið viljið“.

 Svona upplifði ég versta tæpan klukkutíma í lífi mínu sem mig langar aldrei nokkurn tíman að upplifa aftur en þið vitið að sjálfsögðu framhaldið af þessari „sögu“ en það styttist óðum í næstu rannsóknir hjá Þuríði minni eða í maí’12 en það er ekki ákveðið hvenær.  Með réttu ætti hún að fara í rannsóknir í lok maí en vegna þess hvursu kvalin hún Þuríður mín er búin að vera í höfðinu ætla þeir kanski að flýta rannsóknunum.  Þeir gera allt fyrir okkur bara svo okkur líði betur og ég veit að mér mun líða betur á sálinni ef ég veit fyrr að þetta sé alltílagi hjá henni og þetta er „bara“ álag sem er að „bögga“ hana.

 Munið hvað er mikilvægast í lífinu! Og munið líka að kraftaverkin gerast - Þuríður mín er ennþá hjá okkur sex árum síðar :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún unnur þórsdóttir

Guðrún unnur þórsdóttir, 8.4.2012 kl. 01:11

2 identicon

Þuríður Arna er kraftaverk eins löngu sannað er af henni....og þið öll stór sem smá eruð teymi af því,einstakar perlur

Heimurinn er svo ríkur,að eiga ykkur að sem umvefjið hann af ást,kærleik,gleði,von,trú,baráttuanda,hjálpsemi,heiðarleika ...................takk fyrir það gullin mín..
Knús í hús..

Halldór Jóh. (IP-tala skráð) 8.4.2012 kl. 09:52

3 identicon

Mikið er átakanlegt að lesa þetta og hún er svo sannarlega kraftaverk!

Takk fyrir að minna mig á hvað er það mikilvægasta í lífinu og kærleiksknús á ykkur öll

Lilja (ókunnug) (IP-tala skráð) 8.4.2012 kl. 17:09

4 identicon

knúsknúsknús til ykkar:) gangi ykkur allt í haginn, góðar vættir vaki yfir ykkur öllum, þúsund kossar og bataóskir :)

Didda Helga (IP-tala skráð) 8.4.2012 kl. 19:10

5 identicon

Hæ hæ, knús á ykkur.

Ég sá ykkur út að hjóla í dag og hugsaði "en flott fjölskylda, öll saman úti að hjóla í góða veðrinu" og vissi ekki hver þetta væru fyrr en ég kom nær, þá sá ég að þetta voruð þið, þið búið greinilega í sama hverfi og ég :) .. flott fjölskylda.

Gangi ykkur vel og þú ert alveg ótrúlega dugleg og flott kona.

ókunnug (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 17:03

6 identicon

þetta er átakanleg frásögn, en sem betur fer gerast kraftaverkin.

KV.gþ

gþ (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 18:24

7 identicon

Elsku þið öll,

Ég hef lesið þessa sögu áður og skil að minningin um þetta hjá ykkur sé ein af martröðunum í kring um þessa baráttu ykkar fjölskyldunnar, þar sem samt skiptast á skin og skúrir, og alveg ótrúlega mikið skin því þið eruð knúin áfram af orku sem betur væri í apótekum svo fleiri gætu fengið jafnvel þó verkefnið værri minna en ykkar.

Sendi ykkur fangið fullt af góðum og kærleiksríkum kveðjum.

Solveig (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 23:29

8 identicon

Þið hafið örugglega skoðað allar mögulegar meðferðir fyrir litlu hetjuna ykkar en ég vil vekja athygli á spítala í Bandaríkjunum sem er með nýja krabbameinsmeðferð í prófun sem hefur gefið sérstaklega góða raun fyrir börn með heilaæxli http://www.burzynskiclinic.com/patient-stories.html

Vildi bara benda á þetta ef ske kynni að þið hefðuð ekki heyrt um þessa meðferð sem svo sannarlega gefur von um kraftaverk.

Kærleiksveðjur og gangi ykkur sem allra best!

Helga (IP-tala skráð) 14.4.2012 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Nýjustu myndböndin

Þuríður í vaskbaði :)

Hinni rokk

Jólakveðjan 2010

Stóra leyndarmálið

Það vantar ekki taktana :)

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband