Leita í fréttum mbl.is

"jæja hvað segiði gott í dag?"

Þetta er mjög algeng spurning sem ég fæ þegar ég hitti fólk á förnu vegi eða bara mjöööög algeng spurning hjá fólki til okkar?  Oft hugsa ég eftir hvaða svari er fólk að bíða eftir?  Er það bara að bíða eftir því að ég segi "bara allt fínt" eða ég segi bara einsog er og brotni niður og fari að hágrenja?  Ég veit eiginlega ekki eftir hverju þið eruð að fiska eftir?  En alltaf segir maður samt "jújú við segjum bara fínt" þó við segjum ekkert fínt, afhverju skyldi það vera?  Kanski vegna þess fólk verður alltaf svo hissa ef ég segi "bara sæmilegt" og bara "ha nú hva afhverju?" þannig besta svarið mitt til ykkar er "ég segi bara fínt og allt í gúddí fíling".

Ég reyni að forðast einsog ég get að hitta fólk sem ég hef ekki hitt lengi eða veit lítið um stöðu mála því ég er orðin svo þreytt og finnst erfitt að útskýra stöðu mála þó hún sé ekkert verri en fyrir mánuði síðan eða ég held ekki?  Við vitum ekkert hvernig æxlið þróast þessar vikurnar og munum ekkert vita nærri strax eða ö-a ekkert fyrr en rétt fyrir jól (æðislegur tími eða þannig, en það er víst ekki spurt um tíma eða stað) því þá ættu bólgurnar að vera farnar frá geislameðferðinni og ætti að koma "réttar" myndir úr myndatökum well það leið allavega svona langur tími úr síðustu geislameðferð þannig við gerum okkur engar vonir fyrr en þá.

Við erum ennþá að bíða eftir hringingu frá spítalanum og svörum frá New York en þeir lofuðu að hringja í síðasta lagi í dag allavega til að láta okkur vita hvort þeir hafa fengið einhver svör þannig ég bíð bara róleg við símann, er hvorteðer vön að bíða.  Aaaaargghh!!

Ég er ofsalega þreytt þessa dagana og þrái svo margt sem ég fæ ekki sem mér finnst ofsalega ósanngjarn.  Ég er mjög brothætt og reyni einsog ég sagði eftir minni bestu getu að ræða ekki um Þuríði við alla nema Óskar minn.  Ég skil samt ekki þessa þreytu, nei ég er ekki ólétt einsog sumir halda og ætla mér ekki að verða það á næstunni ef þið hélduð það kanski líka.  Ég er ekki heldur sú sem er veik þannig mér finnst þetta ofsalega skrýtið, ég hef varla orku í það lyfta litla fingri hér heima en reyni samt alltaf að dekra við drenginn þegar við erum svona tvö á morgnanna enda ekki annað hægt.  Öll mín orka fer í hugsanir, andskotinn hafi það afhverju er lífið svona ósanngjarnt?

Ég er ekki þessi týpa að biðja um aðstoð ef þess þyrfti og oft þyrfti maður á henni að halda en samt biður maður aldrei um hana?  Afhverju er það?  Er stolltið svona mikið?  Maður finnst maður geta þetta allt sjálfur, eru allir svona sem eiga veik börn/aðstandendur eða eru sjálfur veikir?

Ég þrái að vera ein einhversstaðar með Skara mínum, fara tvö eitthvert í viku væri draumur í dós, þar sem sólin skín og við þyrftum ekki að gera handtak.  Er alltaf að skoða tilboð hjá ferðaskrifstofum ekki það að við séum að fara eitthvað en það er líka í lagi að láta sig dreyma, fjarlægur en góður draumur. En vitiði það líka ef okkur langaði (og gætum)að fara eitthvað þá gætum við það ekki því það er alltaf verið að hneykslast á því hvað við erum að gera og það hefur ofsalega í mig, ekki bara fólk útí bæ heldur líka fólk sem er nálægt okkur.  Við gerum heldur aldrei neitt nema okkur er gefið það eða nánst send í burtu en nota bene þá er ég ekki að biðja um það núna ALLS EKKI, bara segja hvernig aðstæður eru og hvernig fólk er. 

Annars er ég að vinna að góðu verkefni þessa dagana sem gefur mér ofsalega mikið en ég mun segja ykkur frá því seinna þegar því verður lokið þannig séð.  Bíðið bara spennt!!

Þuríður mín er sæmilega hress, hún sefur í klukkutíma á leikskólanum og á meðan það er "bara" klukkutími af 5 ára barni er það í lagi en um leið og það mun aukast sem við vitum að það mun gera þá fær hetjan mín að vera í tjillinu hjá mömmu sinni og kúra í mömmu-koti.  Hún hefur ennþá orku í að vera í leikskólanum sem er æðislegt og er sæmilega hress þar en þegar fer að líða að kaffileyti þá fer að síga á þreytuna hjá minni þannig hún er ekkert rosalega orkumikil.  Einsog í gær var hún einsog hún væri dauðadrukkin, augun hennar sokkin af þreytu, var mjög völt  en samt náðist hún ekki að hvílast.  Það er sárt að sjá hana svona!

Ætla að láta þetta duga í bili þó ég gæti skrifað endalaust í dag en þá hef ég ekki orku í það.  Þarf að fara byrja aftur í ræktinni eftir tveggja mánaða pásu, veit hvað það gefur mér mikið og gefur mér aðeins meiri kraft.

Svona er Ísland í dag.
Slauga þreyttasta á svæðinu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku Áslaug, ég skil að þessi fj..... þreyta sé gjörsamlega að sliga þig, hugsanirnar "í hnakkanum" krefjast svo mikillar orku.  Ef þú hefur áhuga að spjalla, blása út, öskra eða eitthvað, er ég alltaf í boði - "just a phonecall away"!

Farið eins vel með ykkur og hægt er,

Eygló

Eygló (mamma hans Benjamíns Nökkva) (IP-tala skráð) 9.8.2007 kl. 09:55

2 identicon

Hellú. Áslaug ég myndi ekki hika við að biðja um aðstoð þó svo að ég viti nú hvað það er erfitt að óska eftir henni og einnig finnst manni maður vera já, þú skilur mig en þegar Anney Birta var alltaf úti í Boston í aðgerðunum og svo þurfti ég í brjósklosaðgerð og gat ekki gert neitt heima og hafði ekki heldur orku í það áður en ég fór í aðgerðina þá kom gömul kona til mín eftir að Jói hafði verið í heimsókn með skarann hehe. þá tjáði hún mér að ég ætti rétt á þrifum heima frá félagsþjón. já ,já hugsaði ég glætan.. en svo nokkrum dögum síðar lét ég leiðast og sá sko ekki eftir því,það kom kona heim einu sinni í viku og þreif allt og skipti á rúmunum aðra hverja viku og OMG það var æði ég náði að jafna mig og fann strax að ég hafði miklu meiri orku í að hugsa um mig og mína svo Áslaug ekki bíða lengur talaðu við þau og fáðu aðstoð,því þú þarft á allri þinni orku að halda til að geta tekist á við þetta allt,því það fer hellings orka í að hugsa um draslið og ennþá meiri orka í sektarkenndina að geta ekki og hafa ekki orku í að gera neitt við því. Þú finnur mun á þér strax  kv Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann (IP-tala skráð) 9.8.2007 kl. 10:04

3 Smámynd: Þórunn Eva

vá hlustaðu á Guðrúnu ekki hika við það... :)

þú ert svoooo dugleg elsku Áslaug.... ofurknús og ofurkoss..... :)

hlakka til að hitta þig næst... :)

vertu í bandi ef að þér langar að taka rúnt út fyrir borgarmörkin.. :)

Þórunn Eva , 9.8.2007 kl. 10:17

4 identicon

Ekki hika við að biðja um hjálp - þó það sé erfitt - hafðu samband við mig ef það er eitthvað sem ég get gert.

Kveðja

Beglind Elva ókunnug

Berglind Elva (IP-tala skráð) 9.8.2007 kl. 10:24

5 identicon

Sæl kæra Áslaug

Mikið skil ég þig vel þegar þú ert að lýsa spurningunum, "Hvað er að frétta" og "hvað segir þú gott". Ég held að við gerum okkur ekki alltaf grein fyrir því hvað þessar spurningar geta oft verið erfiðar og enn síður hvað svörin eru oft út úr kú, miðað við raunverulega líðan viðkomandi. Maður ber þessar spurningar upp í algjöru hugsunarleysi og er kannski ekki viðbúinn öðru svari en "allt fínt". Hvað gerir maður þegar einhver segir, "mér líður alveg bölvanlega" - "ég er hreinlega að brotna undan álaginu sem ....". 

Það er erfitt að bíða eftir svari sem snertir jafn ægistórt mál og líf og heilsu barnsins manns. En lífið er reyndar ein samfelld spurningaruna og við vitum aldrei hvenær fæst svar við þessu eða hinu. Og eru læknar færir um að gefa tæmandi svör þegar upp er staðið, hver veit það.

Samfélagið er alltaf að send manni hin og þessi skilaboð og sum þeirra eru fáránleg. Þú er hissa á því að þú sért þreytt. Það er ég hinsvegar ekki og væri reyndar mjög hissa ef þú værir ekki þreytt. Það fer svo gríðarleg orka í að vera með börn og þá meina ég heilbrigð börn. Að vera með fárveikt barn eins og Þuríði + 2 sprelligosa á fyrirhafnarsömum aldri er ekkert smá púl. Aðstandendur þeirra sem veikir eru, gefa svo mikla orku frá sér að slíkt er með ólíkindum. Þegar slíkt orkustreymi er frá manneskju mánuðum saman, þá verður eitthvað undan að láta. Nú bið ég Guð að senda þér orku, að senda þér endurnæringu, að senda þér von, að senda þér kærleika, að senda þér vörn gegn áreiti samfélagsins og síðast en ekki síst að senda Þuríði Örnu bata. Kærar kveðju til ykkar allra. Fríða

Fríða (IP-tala skráð) 9.8.2007 kl. 11:01

6 identicon

Kæra Áslaug, mikið skil ég þig vel. Það að horfa á barnið sitt þurfa að glíma við svona veikindi eins og Þuríður litla er og hefur verið að gera mergsígur alla orku úr manni. Að því viðbættu kemur svo þessi vanmáttakennd að geta ekkert gert fyrir barnið og svo allar áhyggjurnar sem maður hefur af hinum börnunum.  Ég vildi að ég gæti bent þér á einhverjar leiðir. En ég hvet þig til að reyna að nýta þér eitthvað af því sem í boði er núna strax því orkan dvínar og dvínar svo fara koma allskonar líkamleg einkenni sem tekur tíma að vinna á.  Reynið að fara eins vel með ykkur og þig getið. Þið foreldrarnir eru þau sem Þuríður þarf mest á að halda.

Kveðja, Halla (móðir Guðbjartar Lóu)

Auðbjörg Halla (IP-tala skráð) 9.8.2007 kl. 11:04

7 identicon

Kæra Áslaug, ég kíki inná bloggið þitt á hverjum degi og mér finnst þið öll æðisleg!  Þið eigið svo falleg og brosmild börn.  Sem betur fer hef ég ekki þurft að takast á við svona alvarleg veikindi-, guði sé lof!  Þetta hlýtur að vera alveg rosalega erfitt.  Ef eitthvað er að bögga mig og fólk spyr "nei hæ, hvað segirðu" þá bara brosi ég út að eyrum og segi "allt djöfullegt, þakka þér fyrir-, en þú?" .  Klikkar ekki.  Að lokum, hikaðu ekki við að þiggja alla þá hjálp sem þú (og Óskar) getur fengið, það er fullt af fólki sem virkilega vill hjálpa.  Kv.  Huldís.

Huldís (IP-tala skráð) 9.8.2007 kl. 12:46

8 identicon

Hæhæ Áslaug og family

Langt síðan ég hef skrifað þó ég fylgist nú alltaf með ykkur. Um að gera að fá aðstoð svo þið getið safnað orku og sé þar af leiðandi betur um ykkur sjálf og krakkana :)

Ég og mamma hittum Oddnýju á hlaupum um daginn. Ég veit ekki hvort hún sagði þér frá því, en þá er ég að bæta við fimmta barnabarninu hjá gamla settinu og hann Davíð bróðir minn er að bæta við því sjötta :) mikið að gera á stóru heimili !! Ég lofaði Oddnýju að láta ykkur vita þegar barnalandssíðan væri tilbúin. Ég er sett þann 17 nóv og Davíð 5 jan :)

Vonandi gengur allt vel hjá ykkur og við verðum nú í tölvusambandi þó það sé ekki meira ;)

Biðjum að heilsa í bili :*

Svala (IP-tala skráð) 9.8.2007 kl. 13:51

9 identicon

Ertu þreytt já, hvurslas er þetta, tekurðu ekki vítamínin þín eða hvað. Elskan mín ertu kannski bara mannleg, mikið í álag í langann tíma hefur áhrif á kroppinn þinn og tærir sálina. Jú held bara að þú sér mannleg, mikið er ég fegin og þú ættir að vera það líka, súpermann og hans líkir eru ekkert vel liðnir eins og þú veist og ekkert spennandi að líkjast þeim um of. Þú ert ung og það hefur auðvitað komið þér mjög langt sem er mega gott en það má nú öllu ofgera mín kæra.  Það er ekki hægt að vera alltaf dugleg við hin erum það ekki heldur, uss ekki segja neinum En ég verð bara að segja það einu sinni ennþá að hinum kemur ekkert við hvað þú gerir, ekki baun í rass og hana nú. þú eyðir því sem þér sýnist í það sem þér sýnist og hana nú. Ef það er að skríða í helli í heila viku með Skara sæta þá gerir þú það bara sama hvað örðum finnst segi ég nú bara. Gamla reynda konan hehehe  

Gangi ykkur vel og farðu vel með þig, ekki láta þér verða kalt og stormaðu annað slagið hring um rauðavatn, mikil heilun í því

Sigga Gulludóttir (IP-tala skráð) 9.8.2007 kl. 14:53

10 identicon

Sæl Áslaug og Óskar ,

                                    ég vona að þið hafi það gott miðað við aðstaðir.Það hlýtur að vera afskaplega erfitt og þreyttandi að takast á við allt þetta álag , ég á ekki til orð um dugnaði hjá þér og Óskari og ykkar öll ,þú ert alltaf svo fín í myndirnar og brosandi þó svo að innst inni ertu orðin mjög þreytt og lúin.Þetta tekur á!ég vissi að ég hefði ekki átt að segja að kannski varstu ólett fyrir nokkuð síðan en það var bara hugmynd ég vildi ekki svekkja þig ,.Fyrirgefðu aftur. Varðandi þessu þreyttu, ég byrjaði að takast á við mjög erfiðu mál fyrir tæplega þremur árum síðan.Málið var tekin fyrir hæsturéttadóm í Dublin í Febrúar á þessu ári og hann var sýknaður af 19 ákæru af   k-misnotun á mig sem barn.Það er langt saga hann er en að og er að verið að reyna að ná þessi maður ennþá(eins og ég sagði´fyrir nokkra víkum síðan ég virði þessu síða mikið og ætla ekki að blanda mál mín inná ) .Nóg um það málið er sú ég er komin á fimmta brjósklos,ég er búin að lenda í allskonar veikindi út af sálarálag og þrettya sem fylgir svona átak , þegar ég og maðurinn minn kom heim til Íslands  eftir þetta ég svaf hátt í 6 víkur dag inn dag út , ég sinnti börnin inn á milli en varð að fá hjálp svo mikið áhrif hefði þetta á mig.Ég hefði ekki sofið almennilega í tæp 3 ár út af þessu,þess vegna hvet ég þig af innstu einlægni að fá þér hjálp.Það er ekkert skamm af þessu þú ert þreytt sem vón er !!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! og það er ekkert að því að þykkja hjálp og vera fegin því að það er fullt af folki sem vill hjálpa þér og Óskari.Þú ert svo góð og hlý og sterk manneskju .Mér liður ekki vel í dag að vera ekki útivinnandi en ég þarf bara að gera eitt vitlaust beyju þá er ég farin í bakið aftur , ég get sagt þér ég gæfi hvað sem er að geta farið í heilsurækt á ný og byggja upp þól en því miður það er allt í það mikið klessu að það verður ekki á næstunni.Þú verður að fá hvilð annars fer þetta að bitna á þér og heilsan þín ég er að tala af eigin reynslu,og það væri agalegt að lenda í alvarleg veikindi sjálf út af þessu.

Mér finnst rétt hjá þér að eiga þér draum að fara út eitthvað tíma með Óskari , burt með það hvað öðrum finnst, þetta er YKKAR mál, það er nauðsynlegt fyrir alla að eiga sér draum.Ég segji samt kannski vantur þú járn eða vítimin eða bara læknis álit sem getur hjálpað þér að skilja betur hvað er að gerast innri með þérsem vaeldur þessi þreyttu.

Ég bið guð að styrkja þig Óskar og börnin ykkar, þau eru indisleg .Ég vona að ég svekkja þig ekki með mínu skrift mig langaði bara að útskýra hvað mér var sagt af læknirinn mín varðandi þessu þreyttu og hvaða áhríf svona sálar álag getur haft á manni og hvernig það getur haft alvarleg áhrif á heilsunni.

Ég óska þess að allt fer vel fyrir ykkar og guð geymið og styrkja ykkur öll.Kveðja Dee

Dolores Mary (IP-tala skráð) 9.8.2007 kl. 15:10

11 identicon

Skil þig svo vel... Vona að símtalið komi í dag, þessi bið er alltaf jafn leiðinleg.

Bestu kveðjur Elfa

Elfa og fjölskylda (SKB) (IP-tala skráð) 9.8.2007 kl. 16:43

12 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Hitti einu sinni gamla vinkonu mína þar sem hún var að kaupa franskar kartöflur. Hún leit voða vel út, var svo sólbrún og sæt. Ég vissi að dóttir hennar hafði fengið krabbamein en spurði einmitt svona í gleði minni við að sjá vinkonu mína: "Hvað segir þú gott?" Hún sagði hreint ekkert gott og sagði mér frá því að hún byggi á barnadeildinni og var að kaupa franskar fyrir dótturina sem vildi ekki borða neitt annað, læknarnir sögðu henni endilega að gera þetta svo að barnið fengi einhverja næringu. Hún hafði verið mjög veik sú litla, eiginmaðurinn gefist upp á "álaginu" og yfirgefið fjölskylduna. Hin börnin voru í pössun, þar af eitt nýfætt. Sólbrúnkan var þannig tilkomin að starfsfólkið á barnadeildinni leysti hana af einu sinni á dag og hún fór og svaf í ljósbekk í gegnum tvöföldum ljósatíma, það var eina hvíldin hennar í marga mánuði. Barnið lifði þetta af en ég hitti á mjög slæma stund til að spyrja hvað hún segði GOTT! Hef passað mig eftir þetta ef ég veit að eitthvað er að. Fólk er líka oft svo vandræðalegt og veit kannski ekkert hvað það á að segja. Skil þig alveg að þú orkir ekki að vera að segja öllum hvað er í gangi. Gangi þér bara vel, elskan og ég vona að þú endurheimtir orkuna sem fyrst. 

Guðríður Haraldsdóttir, 9.8.2007 kl. 18:33

13 identicon

Elsku Áslaug,

Mér finnst orkuleysi þitt gersamlega skiljanlegt. Það hlýtur að fara endalaus orka í það að hugsa og hugsa og hugsa, og vita það að það er ekkert sem þú getur gert til þess að "lækna" Þuríði þína. Eina sem þú getur gert er að vera til staðar fyrir þig og börnin þín og hefur ekki orku í það því að tíminn fer í að hugsa og hugsa og vona og vona og hafa stanslausar áhyggjur sem hverfa aldrei..... Þú ert sterk og og dugleg kona og ég dáist að þér.

Mér finnst ógeðslegt að hugsa til þess að þú þurfið líka að vera pæla í því ofan á allt hvað annað fólk er að hugsa. Að það skuli vera til fólk sem er alltaf tilbúið að dæma.

Dæmið ekki fyrr en þið hafið farið skó viðkomandi og gengið um í þeim. Þetta er mitt mottó. Að vera dómharður kemur af fávisku. Ég stend mig stundum af því sjálf en reyni eftir fremsta megni að dæma ekki fólk sérstaklega þar sem aðstæður er svo langt því frá að vera eitthvað sem maður skilur.

Þú ert ábyggilega alltaf að fá einhver ráð og ég er að spá í að vera bara dálítið böggandi ég er víst þekkt fyrir það. Meira að segja kölluð ungfrú Ráðhildur í minni fjölskyldu Hrein kókosolía á víst að vera rosalega góð. 3 teskeiðar á dag. Ofan í smoothie eða ofan á brauð eða bara beint úr skeið., hún er svo orkugefandi, sakar ekki að prófa þú þarft víst á allri aukaorku á að halda :)

Hugsa til ykkar alltaf

Guðrún (ókunnug mamma sem er ekki sama)

Guðrún (IP-tala skráð) 9.8.2007 kl. 22:30

14 identicon

Sæl Áslug mín

Myndirnar af börnunum þínum frá Brosbörnum eru svo fallegar og sterkar, þær görsamlega heltaka mann. Frétti af ykkur í Múlakoti. Farðu vel með þig, hugsa til þín.

kv Unnur.

unnur Einarsdóttir (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 00:03

15 identicon

Sæl elsku þið öll.

Ég hef oft hugsað og talað um þetta ávarp til fólks "er ekki allt fínt" og þessi út í hött ávörp, þá er ég ekki að meina við þá sem eru í erfiðleikum heldur bara yfirleitt, því það er öruggt að 50% af þeim sem svara jú allt fínt, eru bara í allt öðrum fíling en það, en þetta er notað og annað kannski ekki tiltækt, en ef fólk mundi svara eins og er og segja "andsk... skítt" eða hreinlega hágrenja eins og þú segir þá færi illa um fyrirspyrjanda.

Mér finnst alveg FERLEGT en 100% skiljanlegt að heyra um þreytuna í þér og í raun alveg ótrúlegt að þú skulir standa í lappirnar þínar. Auðvitað verður þú, en það eru takmörk fyrir þreki hjá fólki. Þú ert allavega ekki alveg ónýt hetja.

Varðandi Þuríði þína og þessa endalausu bið og allt það þá er þetta allt hörmulegt.

Gefðu skít í hvað fólki finnst ef þið komist með einhverju móti burtu, ÞÁ FARIÐ, það eruð þó þið sem standið í þessari tilfinninga orustu og þurfið svo sannarlega á heilsunni og sambandinu að halda og ef það er eitthvað sem getur gert ykkur gott þá GERIÐ ÞAÐ alveg sama hvað er, bara ef þið mögulega getið. Ég veit ekki hver fj...... er að fólki.

Hugsa endalaust til ykkar og bið fyrir ykkur.

Með kærleik, aðdáun, samúð og öllu því góða sem til er.

frá Sólveigu

Sólveig (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 09:26

16 identicon

Já það er ekki skrýtið að þú sért orkulaus eftir svona langvarandi erfiðleika. Ég þekki þetta sjálf og skil hvað þú ert að ganga í gegnum. Í mínu tilfelli var það reyndar eiginmaðurinn sem var svona veikur og börnin lítil og maður varð að halda andlitinu hvað sem það kostaði. Vera dugleg, gera allt sjálf og sýna að ég gæti allt hjálparlaust, reyna að brosa í vinnunni, brosi sem ekki náði nema til varanna. En svona stolt tekur bara sinn toll og á endanum var ég orðin alveg orkulaus.

Í Guðs bænum  þiggðu þá hjálp sem þér býðst og leyfðu fólki að vita að þér líður ekki vel, það er engin skömm að því.  Hugsaðu vel um sjálfa þig og ekki hafa samviskubit af því að þið Óskar gerið eitthvað fyrir ykkur. Ekki tæma batteríin þín því með tóm batterí getur þú ekki mikið.

Ragna (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 09:28

17 identicon

Vildi að ég gæti bara knúsað þig og lagað þetta hjá þér.

Þú ert svo þreytt og allt sveiflast svo i kringum þig að þú nærð ekkert að halda frá þér tilfinningum sem þú einu sinni mátt ekki taka á þig, eins og hvað þú heldur að aðrir haldi, þetta er aukabyrði sem þú verður að neita að bera, bara pent afþakkar af því að það er of þungt að valda því.

 Þykir svo ógnarvænt um þig elskan og brosi með þér þegar vel gengur og verð sorgmædd þegar illa gengur.

 Ekki bara hjá Þuríði, heldur líka hjá þér bara sem manneskju, þú varst nú ekkert mörgum árum eldri en hún dóttir þín er núna þegar við kynntumst :)

Ekki gleyma að það er líka fólk eins og ég hérna úti, fólk sem dæmir þig ekki og veit hversu ljúf og yndisleg móðir og manneskja þú ert.

Allir þrá frí af og til, það þarf ekki veik börn til þess og þú mátt alls ekki byrja upplifa reiði og halda að allir dæmi þig fyrir svona hugsanir, þú ert manneskja.

Farðu vel með þig elskan, og forgangsraðaðu sjálf þínum tilfinningalegu byrðum.

Marianna (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 09:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Nýjustu myndböndin

Þuríður í vaskbaði :)

Hinni rokk

Jólakveðjan 2010

Stóra leyndarmálið

Það vantar ekki taktana :)

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband